Leirvogsannáll
 

Eftirfandi skrá er útdráttur úr árbókum segulmælingastöðvarinnar í Leirvogi og skýrslu um starfsemi hennar fyrstu árin.

1953
Þorbjörn Sigurgeirsson, þáverandi framkvæmdastjóri Rannsóknaráðs ríkisins, undirbýr stofnun segulmælingastöðvar með staðarvali og fjármögnun.

1956
Vesturbær reistur.

1957
Austurbær og Miðbær reistir. La Cour segulmælar settir upp í Vesturbæ ásamt pendúlklukku. Regluleg skráning segulsviðs hefst.

1958
Suðurbær reistur og Hitaskúr.  Spantæki sett í Suðurbæ. Pendúlklukka flutt úr Vesturbæ í Austurbæ.

1962
Skráning heildarsviðs með róteindamæli (Magna) í Miðbæ hefst.

1963
Þorsteinn Sæmundsson tekur við umsjón Leirvogsstöðvar af Þorbirni Sigurgeirssyni.
Kristalsklukka, smíðuð á Eðlisfræðistofnun Háskólans,  tekur við af pendúlklukku í Austurbæ.
Skráningarnákvæmni í Leirvogi breytist úr 1 sek. með pendúlklukku í 0,2 sek. með kristalsklukku.
Þorgerður Sigurgeirsdóttir ráðin til að mæla og ljósmynda línuritin úr Leirvogi.

1964
Raflína (220V) lögð í stöðina frá Leirvogstungu.

1965
Nýbær reistur. Fjórir ríómælar settir upp á vegum  Hargreaves (NBS, Boulder), og Seacrist (HRB-Singer, State College). Kristalsklukka flutt í Nýbæ.
 
1966
Raunvísindastofnun tekur við af Eðlisfræðistofnun. Móðabær reistur.  Nýr róteindamælir (Móði), smíðaður á Raunvísindastofnun, tekinn í notkun. Öflugri raflína (háspenna) lögð frá Leirvogstungu. ULF spantæki á vegum Campbells  (NBS, Boulder) grafið niður þar sem Vansahús er fyrirhugað. WWV móttakari frá Campbell settur upp til tímaeftirlits.  Í búnaði Campbells var kristalsklukka, bilanagjörn.

1967
Axelsskúr reistur og spantækjum af Grenet gerð komið fyrir þar vegna MSc vinnu Axels Björnssonar. Vansahús reist.  Merki frá Móða sent til RH með bráðabirgðasímalínu.  Stórfelld malartaka hefst 3-400 m norðaustan við Leirvogsstöð. Guðmundur Örn Árnason kveikir í sinu og veldur bruna á helmingi stöðvarlóðar.  Margar raflínur eyðileggjast og ULF spantæki Campbells skaddast.

1968
Sendiloftnet fyrir Móða sett upp og tekið í notkun. ULF tæki Campbells kemst í stöðuga notkun.
Varnargarður reistur við ána norðan stöðvar í janúar, til viðbótar við tvo ytri garða. Í febrúar gerði stórflóð sem braut alla þrjá garða, tók 80 metra af girðingu og skilaði jakabrotum upp að Vesturbæ. Auk viðgerða var grafinn nýr farvegur fyrir árkvíslina. Fullgildri símatengingu við RH komið á. Salerni sett í Hitaskúr. Trjám plantað meðfram norðurgirðingu.

1969
Hvassviðri feykir burt þakinu af Suðurbæ. Það fannst aldrei . Áin flæddi á ný og braut tvo varnargarða af þremur. Jarðýta fengin til að beina ánni frá.  Öllum leiðslum milli húsa var lyft upp á tréfjalir í 40 cm hæð til að forðast skemmdir af sinueldi.  Tækjaskúr úr áli og stáli reistur sunnan  við Hitaskúr. Báruplast sett á Miðbæ.
Flugmælingar yfir Íslandi með róteindamæli hefjast að frumkvæði Þorbjörns Sigurgeirssonar.  ULF mælingum Campbells hætt, svo og ríómælingum HRB Singers.
Yfirlit um sögu stöðvarinnar var birt á árinu (Þorsteinn Sæmundsson: Leirvogur Magnetic Observatory 1958-1968). Gefnar voru út þrjár skýrslur fyrir fyrstu árin: 1957-1961, 1962-1964 og 1965-1967 (þrjár bækur).

1970
Dieter Josopait frá Stratosphären-Physik, Lindau setur upp segulmælingatæki og skráir í þrjá mánuði. Í febrúar var snjókoma svo mikil að ganga þurfti síðasta kílómetrann að stöðinni í 17 daga. Tímamerkjaviðtæki á 60 kHz var tekið í notkun. Báruplast sett á Nýbæ.

1971
Áin flæddi nokkrum sinnum á árinu og skemmdi varnargarða í nóvember. Jarðýta vann þá í fimm daga við viðgerð. Móðanemi var fluttur lengra frá vökvadælu og komið fyrir á stöng.  Öllum spantækjamælingum var hætt.
Norðurljósamyndavél sem verið hafði á Eyvindará við Egilsstaði var komið fyrir í Leirvogi en engar myndir voru teknar þetta ár.

1972
Snjóþyngsli lokuðu 1-km afleggjaranum að stöðinni í 12 daga í janúar og skemmdu burðarfjalir  undir rafmagnsköplum á lóðinni.  Axel Björnsson fjarlægði Grenet spantæki sitt úr Axelsskúr.
Fluxgate segulmælir („Flosi“) var settur upp í Austurbæ og tengdur við ritara í Nýbæ til að fylgjast með breytingum í láréttri stefnu. Mælirinn var smíðaður hjá Rafagnatækni.
Þjóðvegurinn ofan við Leirvogsstöð var  steyptur á árinu og afleggjarinn að stöðinni lagfærður.
Ytri dyr voru settar á Nýbæ í öryggisskyni.
Gefin var út skýrsla fyrir árin 1968-1970 (ein bók). Upp frá því  kom út árleg skýrsla (árbók).

1973
Leó Kristjánsson tók að sér að gera mælingar á segulnæmi (susceptibility) ýmissa jarðefna við stöðina.
Norðanstormur í febrúar olli verulegum skemmdum. Merkjakapall milli Miðbæjar og Nýbæjar rofnaði, burðarfjalir kapalsins brotnuðu og loftnetið fyrir tímamerkjamóttöku skemmdist. Skemmdunum ollu bárujárnsplötur sem fokið höfðu frá fjarlægum húsum. 
Jarðýta var fengin til að styrkja varnargarða við ána.
Stefnu D-nálar í La Cour mælitæki var breytt vegna langtímabreytingar áttavitastefnu.  Þetta þurfti að gera með nokkurra ára millibili.
Benioff spantækið var tekið í notkun í tvo mánuði að ósk Harald Trefall í Bergen.
Í júli setti Richard Nopper  upp þríása fluxgatemæli í Leirvogi með aðstoð Jóns Sveinssonar.  Mælingarnar voru á vegum J.F. Hermance við Brown háskóla og tengdust stærra jarðsegulsverkefni á Íslandi (magneto-telluric program).
Prófanir á mælistöpli í Miðbæ leiddu í ljós að snefill af segulmagnanlegu efni var í stöplinum.  Til öryggis var ákveðið var að brjóta niður efri hluta stöpulsins og gera nýjan úr gleri. Engin breyting mældist á sviði ofan stöpulsins við þessa aðgerð.
Vara-varða fyrir áttarhorn prófmælinga var reist innan girðingar á stöðvarlóð.
Öryggishurð var sett á Vesturbæ og aðvörunarkerfi komið upp í fimm húsum. Kerfið hringir í Leirvogstungu, Raunvísindastofnun og lögreglu í Mosfellssveit.
Áhaldahús sunnan Hitaskúrs var rifið og innihaldið flutt í Vansahús, vestast á stöðvarlóð.
Axelsskúr var rifinn. Yfirvöld vegamála stórbættu vegarspottann frá þjóðveginum.
Ríómælingum á 30 megariða tíðni var haldið áfram.

1974
Þorgerður fer í hlutastarf (2/3).
Klukkudrifið á La Cour tækjunum bilaði á  árinu, tvívegis  á hæggenga drifinu og einu sinni  á því hraðgenga. Það síðarnefnda reynist ónýtt og þurfti að fá nýtt drif. Þetta átti eftir að endurtaka sig.  
Nýr skráningarpappír fyrir La Cour tæki olli erfiðleikum. Framleiðandi lofaði endurbótum.
Farið var að nota Móða til viðbótar við Magna við vikulegar prófmælingar í Miðbæ.
QHM tæki var sent til Danmerkur til prófunar. Þorsteinn fór með annað til Danmerkur í prófmælingar.

1975
Stormar ollu skemmdum í fimm skipti (dyr, þök og loftnet).
Segulsviðið í Miðbæ var kannað ítarlega. 

1976
Gríðarleg snjókoma í janúar skildi eftir sig 2 m djúpa skafla og braut timburborðin sem héldu uppi köplum milli húsa á lóðinni. Merkjakapall Móða rofnaði en nýr var lagður samdægurs. Átta manna sjálfboðasveit frá RH kom til að hreinsa snjó ofan af timburborðunum. Í leysingum sem fylgdu skemmdist einn  af varnargörðunum við ána, og ýta frá Vegagerðinni var þrjá daga í viðgerðarvinnu, ekki vegna stöðvarinnar heldur vegna malarbingja sem safnað hafði verið í.
Sendiloftnet Móða bilaði í apríl og nýtt var sett upp.
Allar stillingar  La Cour tækjanna voru yfirfarðar og lagfærðar. Sverfa þurfti af Z nál hraðgenga tækis.
QHM tæki var sent til Danmerkur til  prófunar.
Nýtt móttökuloftnet fyrir tímamerki sett upp.
Fluxgatemælir til ferðalaga keyptur frá Rafagnatækni.
Hornamælir (theodolit, Th 42) var keyptur frá Zeiss.
David Orr frá háskólanum í York kom með rúbidíum segulmæli og prófaði hann í Leirvogi.
G.R. Moody frá háskólanum í Lancaster fékk aðstoð við uppsetningu fluxgatemæla á Siglufirði, Eiðum og Fagurhólsmýri.
J.K. Hargreaves frá Lancaster setti upp viðbótarskráningu fyrir ríómælinn í Leirvogi. Hann hefur einnig sett upp ríómæla á Siglufirði og Fagurhólsmýri. 

1977
Veðurofsi í janúar hleypti öryggiskerfinu í gang. Lögregla kom á staðinn en gat ekki kannað málið vegna veðurofsans.
Runnar voru gróðursettir nærri Nýbæ.
Nýtt sendiloftnet fyrir Móðamerki var sett upp í stað þess sem skemmst hafði árið áður.
Klukkudrifið fyrir hæggenga La Cour tækið bilaði. Nýtt klukkuverk bilaði líka. Í bæði skiptin töpuðust 13 stundir af skráningu.  Hraðgenga klukkudrifið var sífellt að bila og olli það alls 23 daga eyðu í gögnum.
Þorsteinn fór með tvö QHM mælitæki til prófana í Tromsö.
Tölvan IBM 1620 sem notuð hafði verið við útreikninga úr mæligögnum síðan 1965 var  lögð niður á árinu. Forrit voru endurskrifuð í Fortran IV fyrir IBM 360/30.
Ríómælingum var haldið áfram á 30 MHz. Aldrei þessu vant var nokkuð um bilanir, sérstaklega á viðbótartæki Hargreaves. Loftnetið fyrir 40 MHz sem ekki hafði verið notað árum saman var tekið niður.
Að beiðni K. Lassen við dönsku veðurstofuna var norðurljósamyndavélin tekin í notkun í 17 nætur í nóvember. Þetta tengdist samstarfsverkefni veðursstofunnar við Cornell háskóla og eldflaugaskotum á Grænlandi.
David Orr og Andrew Smart frá háskólanum í York komu í apríl til að setja upp rúbidíum segulmæli í Leirvogi og annan á Eiðum.  Þetta var samvinnuverkefni við Landfræðistofnunina í Edinborg. Mælirinn í Leirvogi var sífellt að bila. Í september kom Alec Forbes frá landfræðistofnuninni og reyndi viðgerð, en hún heppnaðist ekki nógu vel.
Geoffrey Moody frá háskólanum í Lancaster kom til að halda áfram vinnu við verkefni prófessors Hunter. Hann fékk aðstoð við uppsetningu fluxgatemæla á Ísafirði, Reykjaskóla, Þórshöfn og Hveravelli auk Leirvogs.
Hópur frá háskólanum í Southampton  heimsótti Leirvog í sambandi við uppsetningu VLF lofneta við Húsafell, Siglufjörð og Skaftafell.

1978
Miklir þurrkar í apríl juku hættuna á sinueldi, en börn voru þá að kveikja elda við Brúarland og á Kjalarnesi. Í varúðarskyni voru hellur lagðar umhverfis Móðabæ og vatnstunnur hafðar til reiðu.
Mikil  snjókoma í nóvember olli skemmdum á kapaluppistöðum á Leirvogslóð og skemmdi leiðslur í ríóloftnet. Í árslok féll mesti snjór sem komið hafði síðan 1952 og allir vegir tepptust. Haukur varð að fara fótgangandi  í stöðina frá Skriðufelli.
Rafmagn brást aðeins 4 sinnum, lengst í 2 klst.,  – mikil framför frá fyrri árum, en sá glaðningur hélst ekki næstu ár og truflanalaust varð ekki fyrr en árið 2005.
Nýr Móðateljari var  tekinn í notkun.  Sá var með eigin klukku og studdist ekki við kristalsklukkuna í  Leirvogi. Skráning er nú í tölvuminni, svo að útskrift á gatastrimla heyrir sögunni til.
Ný Móðadæla var tekin í notkun í stað þeirrar sem þjónað hafði frá 1966.
Í desember var skráningu merkja frá Magna aflögð eftir 16 ár. Arftaki Magna var  segulmælir af gerðinni Varian V-75 („Vari“), í umsjón Leós Kristjánssonar á eðlisfræðistofu og hannaður fyrir mælingar í sjó. Nemanum var komið fyrir í stað Magnanema á stöplinum í Miðbæ.
Esterline-Angus ritarar Móða og „Flosa“ voru stórlega endurbættir með þreföldun sviðsins.
Prófmælingar voru gerðar með tveimur QHM tækjum frá segulmælingastöðinni í Rude Skov. Annað tækið var af nýrri gerð.
Öryggiskerfið var útfært með brunaaðvörunarnemum í Austurbæ. Áður hafði slíkur nemi aðeins verið í Nýbæ.
Plasthlífar voru settar á Nýbæ og bárað trefjagler sett á þakið í Vesturbæ.
Í lok árs fékkst samþykki og fjárveiting frá Háskóla Íslands til að kaupa landspildu fyrir Leirvogsstöðina, 225x300 m. Fram að þessu hafði 100x150 m spilda verið leigð frá Leirvogstungu.
Skipt var um tölvu til úrvinnslu segulgagna, úr IBM 360/30 í PDP11/34, einnig í eigu Reiknistofnunar Háskólans. Með nýju tölvunni fékkst tenging sem gerði mögulegt að skrifa texta árbókarinnar í útstöð, en slíkt var nýjung. Samhliða var keypt TI-59 reiknivél með prentara.
Ríómælingum Hargreaves á 30 MHz var hætt.
M.J. Valiant frá landfræðistofnuninni í Hartland kom til að líta eftir kerfi fluxgatemæla sem komið hafði verið upp undir yfirstjórn próf. Hunters í Lancaster. Þetta var um miðjan vetur  og Valiant þurfti verulega aðstoð við að þjóna stöðvunum sem voru á Reykjaskóla, Siglufirði, Þórshöfn, Fagurhólsmýri og Hveravöllum.  Til að komast til Hveravalla var leitað aðstoðar varnarliðsins í Keflavík.  Fyrsta tilraun með þyrlu mistókst og þurfti því að reyna í annað sinn.
Klaus Wilhelm frá Max-Planck stofnuninni í Lindau kom í heimsókn vegna uppsetningar segulsveiflumæla á Þingeyri og Fagurhólsmýri. Í nóvember komu W. Neumann og K.-H. Kiele til að fjarlægja tækin og senda þau til Þýskalands. Þeir fengu nokkra aðstoð á Háloftadeild í bæði skiptin. David Webb frá háskólanum í York kom til að fjarlægja rúbidínmælana  sem hann hafði sett upp árið áður, í Leirvogi og á Eiðum. Honum var tekið fagnandi, því að þessi tæki höfðu verið til stöðugra vandræða.
Hiroshi Fukunishi og Ryoichi Fuji frá Pólrannsóknastofnuninni í Tókýó komu til að ræða samvinnu við verkefni sem stofnun þeirra hafði ráðist í árið áður og snerist um samsvörunarmælingar við japanska stöð á Suðurskautslandinu. Um var að ræða fluxgatemælingar, spantækismælingar, VLF mælingar, ríómælingar og norðurljósaathuganir.
Geoffrey Moody frá háskólanum í Lancaster kom til að taka niður alla fluxgatemæla próf. Hunters. Verkið tók 10 daga, með nokkurri aðstoð starfsmanna Háloftadeildar.

1979
Mikill tími fór í sérverkefni eins og að koma rafstrengjum í jörð, koma upp salernisaðstöðu í Austurbæ og reisa nýjan mælistöpul 26 m SV við Miðbæ vegna fyrirhugaðs segulmælingamóts (norrænns).
Guðmundur  Magnússon í Leirvogstungu endurbætti vegarspottann niður að stöðinni.  Janúar var sá kaldasti á þessum slóðum frá 1918. Snjókoman um áramót lokaði Leirvogsafleggjara í þrjár vikur. Hann lokaðist aftur í tæpar þrjár vikur í febrúar. Þriðja lokunin, 7.-8. mars, var afleiðing af mesta hríðarbyl síðari ára sem stöðvaði alla umferð í héraðinu og olli mikilli rafmagnstruflun.  Kalla þurfti út sex manna lið til  að bjarga uppistöðum kapla á stöðvarlóðinni. Í framhaldi af því var ákveðið að leggja alla kapla í jörð. Var það gert um sumarið.  Dráttarvél var notuð í fyrsta sinn til að slá og hirða gras á lóðinni.  Áður hafði verið slegið með orfi. Staurar úr gömlu ríómælunum voru notaðir til að merkja  ytri mörk eignarlóðar stöðvarinnar, sem nær yfir hluta íþróttasvæðis Mosfellsbæjar.
Unnið var að endurbótum á hraðgengu La Cour tækjunum og þeim umbreytt í næm „normaltæki“ með grunnlínum vegna væntanlegs segulmælingamóts.
D-fluxgatemælir var settur upp í Austurbæ til viðbótar við H-fluxgatemælinn.
Magni, sem vikið hafði fyrir Vara í Miðbæ, var notaður við mælingar í Húsey.
Nýr tímamerkjamóttakari á 60 kHz var tekinn í notkun og tengdur þannig að hann sýndi beint frávik stöðvarklukkunnar frá réttum tíma. Einnig var hægt að sýna skekkju símaklukkunnar.
Benioff spantækið í Austurbæ var tekið niður til að rýma fyrir fluxgatemælum.
VW sendibíll háloftadeildar var seldur og lítill Subaru keyptur. Sá skemmdist talsvert við útafakstur  í hálku.
Þorsteinn fór með tvö QHM tæki til prófmælinga í Brorfelde.
Skráningu gagna á gataspjöld var hætt og skráning á disklinga tekin upp í staðinn. Eldri gögn voru flutt á segulbönd en 60 þúsund gagnspjöldum fleygt. Háloftadeild fékk eigin prentara (Decwriter II).
Ríómælingar héldu áfram á 30 MHz. Loftnet fyrir 9 MHz og 20 MHz sem lengi höfðu staðið ónotuð, voru tekin niður.
Nemendur frá Menntaskóla Ísafjarðar komu í heimsókn. Margir starfsmenn RH komu einnig  í stutta heimsókn.

1980
Norrænt segulmælingamót fór fram í Leirvogi í ágúst. Það kallaði á margvíslegan undirbúning s.s. hönnun tjalds yfir viðbótarstöpulinn sunnan Miðbæjar og tengingu merkjalínu fyrir skráningu La Cour tækja.
Veður var með allra besta móti allt árið, nema í ágúst þegar norræna mótið fór fram; þá kom metrigning, 8 cm á sólarhring.  Mosfellsbær keypti landið umhverfis stöðina, sem áður tilheyrði Leirvogstungu. Leiddi það til aukinnar notkunar á íþróttavellinum og umferðar. Bærinn féllst á að setja upp girðingu til að bílum væri ekki lagt of nærri stöðinni.
Klukkuverk hæggengu La Cour tækjanna (NR-1) bilaði fimm sinnum á árinu  og var þrívegis skipt um klukkuverk. Vinnu við hraðgenga tækið (NR-2) var haldið áfram og henni lokið fyrir mælingamótið í ágúst. Við prófanir kom í ljós að hitastigsjafnari í NR-2 hafði frá öndverðu snúið öfugt og aukið áhrif af hitasveiflum.  Bæði tækin voru tengd merkjalínum  við báða mælistöplana þannig að hægt væri að gefa merki frá stöplunum til hvors tækis um sig eða beggja í einu.
Nýr mælir (QD-3) var fenginn að láni frá dönsku veðurstofunni til ákvarðana á áttavitastefnu (D). Þessi mælir var prófaður ítrekað í febrúar-mars og virtist gefa talsvert frávik frá QHM tækjunum.  Við samanburðarmælingarnar í ágúst hafði þetta frávik horfið.
Símalínan frá 1968 fór í sundur og ný lína var lögð, fyrst ofanjarðar til bráðabirgða en síðan í jörð.
Vegna norræna mælingamótsins var húsvagn tekinn á leigu og komið fyrir norðaustan við Nýbæ. Höfðu þátttakendur þar aðstöðu.
IBM 360/30 tölva Reiknistofnunar var notuð til úrvinnslu fram í febrúar. Þá var skipt yfir í VAX 11/280 sem Reiknistofnun hafði fengið í stað PDP-11/60. Breyta þurfti forritum umtalsvert.
Ríómælingum var fram haldið á 30 MHz þar til í ágúst, að tækið var tekið til viðgerðar.
Vegna mælingamótsins  komu eftirtaldir í heimsókn: Steinar og Karin Berger (Tromsö), Vainö Björnström (Kiruna), Eero og Airi Kataja (Sodakylä), Matti og Hilkka Kivinen (Nurmijärvi), Hans Hedström og Birna Ólafsdóttir (Lovö), E. Kring Lauridsen og Margrete Lauridsen (Kaupmannahöfn).
Í september fom Junichiro Miyakoshi frá jarðvísindastofnun háskólans í Tottori, Japan.
Stöðvarklukkan var notuð til að fylgjast með símaklukkunni og tilkynna skekkjur með samkomulagi við yfirstjórn Símans.

1981
Stærsta verkefnið á lóðinni var endurbygging Móðabæjar (hækkun og flutningur um 4 m).
Guðmundur í Leirvogstungu kom tvívegis til aðstoðar Pálma þegar bíll hans festist snjó.
Gunnar Þórisson á Fellsenda sló lóðina með dráttarvél. Það hafði ekki verið gert áður.
Mjög snjóþungt var framan af ári. Skaflar huldu girðingar og skemmdu þær og runna. Komið var fram í apríl þegar allir göngustígar milli húsa urðu nothæfir. Stormur í febrúar var sá mesti síðan 1973, náði 190 km/klst., en áttin var hagstæð (suðlæg) og stormurinn olli engum skemmdum í Leirvogi. Síðustu mánuðir ársins voru þeir köldustu á öldinni á þessu svæði, en kuldinn olli engum truflunum í Leirvogi.
Flugbraut var lögð vestan stöðvarinnar og lóðarmerkjastaur fjarlægður í óþökk Háloftadeildar.
Nýr segulstefnumælir (Quartz declinometer, QD-11) var keyptur frá dönsku veðurstofunni. Mælingar með honum sýndu óskýrð frávik frá D-mælingum með QHM svo að tækið var ekki haft til viðmiðunar þetta árið.
Stöðvarhús voru máluð með málningu sem áður hafði verið notuð og segulprófuð. Of seint kom í ljós að málningunni hafði verið breytt og var hún nú segulmagnanleg. Áhrif á mælingar í Miðbæ voru metin innan við 1 nanotesla, svo fremi sterkir seglar komi ekki nálægt húsveggjum.
Þorsteinn fór  með QHM tæki til samanburðarmælingar í Hartland í Englandi og  Eskdalemuir í Skotlandi.
Raunvísindastofnun keypti PDP-11/23 tölvu til að spara sér notkun VAX tölvu á Reiknistofnun. Útreikningar segulgagna fluttust yfir  á þessa tölvu. Háloftadeild keypti  smátölvu af gerð Osborne-1 til textavinnslu o.fl.
Ríómælingar á 30 MHz hófust aftur í júlí eftir að tækið hafði verið yfirfarið.
Heimsóknir:  Leó Kristjánsson kom með nemendur í heimsókn í apríl.  Í maí flaug segulmælingavél af Orion gerð nokkrum sinnum yfir stöðina sem lið í áætlun undir heitinu „Project Magnet“. Starfsmönnum af Raunvísindastofnun var boðið að skoða vélina og tæknibúnað hennar, og tveir af leiðangursmönnum, James Crowe og Slade Barker heimsóttu Leirvogsstöð. Seinna komu í heimsókn þeir Þorbjörn Sigurgeirsson, Ragnar Ingimarsson og Svanberg K. Jakobsson.

1982
Malartaka olli vatnsleysi í brunni stöðvarinnar.
Tromla línuritaþurrkara bilaði.  Línurit voru þurrkuð í þrjár vikur hjá Landmælingum Íslands. Þetta olli breytingu í kvarðagildum. Framleiðslu línuritapappírs af þeirri tegund sem notuð hafði verið í Leirvogi (Linagraph 1884) var hætt hjá Kodak. Segulmælingastöðin í Hartland bjargaði málum með Linagraph 1930 sem reyndist betur (plasthúð gerði þurrkara óþarfan).
Hjari (QD-11) gaf áfram frábrigðilegar niðurstöður og nýr sjónauki breytti engu.
Ný mælistöð var sett upp við flugvöllinn á Patreksfirði.
Útreikningar fóru fram á PDP-11/23 tölvu RH og VAX 11/280 tölvu Reiknistofnunar.
Þorsteinn fór með tvö QHM tæki til prófmælinga á mót í Nurmijärvi í Finnlandi.
Gestir: Nemendur úr Langholtsskóla komu í mars. Sveinbjörn Björnsson kom með nemendur í maí. Peter Collis frá háskólanum í Lancaster kom í júlí. Páll Einarsson kom með nemendur í nóvember.

1983
Þorbjörn Sigurgeirsson tók þátt í mælingaferð á Patreksfjörð.
Mikil snjókoma í janúar olli erfiðleikum við að komast að stöðinni.   Tvisvar í janúar var alls ófært í stöðina. Snjóskaflar náðu 2 metrum.
Svo  mikil malartekja hefur verið við ána að stöðinni stafar ekki lengur hætta af flóðum þaðan.
Áfram var segulstefnumælirinn Hjari (QD-11) prófaður á ýmsan hátt til að reyna að skýra hvers vegna hann gaf ekki sömu niðurstöðu og QHM tækin. Í ljós kom að spanhrif í sjónaukanum komu þarna við sögu og skýrðu hluta af mismuninum.
H-Flosa og D-Flosa var breytt í núlltæki með gagnvirkum spólum.
Nýr rafstrengur var lagður í Miðbæ. Eldri strengur hafði truflað Magna meðan hann var í notkun.
Mikið var lagt í viðhald húsa og trjárækt.
Þorsteinn fór með tvö QHM tæki til Brorfelde til prófunar á norrænu mælingamóti.
Norðurljósamyndavélin á Rjúpnahæð var flutt í Leirvog til geymslu.
Ríómælingum var hætt eftir 18 ára starfrækslu.

1984.
Guðmundur  Magnússon í Leirvogstungu veitti aðstoð þegar stofnunarbíllinn festist í snjó og vann að lagfæringu vegarins að stöðinni.
Mikil snjókoma í janúar og febrúar gerðu erfitt að komast að stöðinni. Tvívegis þurfti að fá aðstoð til að losa Subaru bílinn og hann varð fyrir nokkrum skemmdum. Snjórinn olli skemmdum á girðingunni umhverfis lóðina.
Verkfall opinberra starfsmanna frá 4. til 30. október leiddi til þess að Þorsteinn  þurfti að sinna brýnustu  störfum Pálma og Þorgerðar.
Ný bygging við íþróttavöll skyggði á vörðuna sem notuð hafði verið við segulstefnumælingar. Tæknimaður Mosfellsbæjar sá um að reisa nýja vörðu. Stefnan til þeirrar gömlu hafði breyst frá upphaflegri stöðu (1958) um 12 bogasekúndur, sem svarar til 3 cm færslu vörðunnar sem er í 540 m fjarlægð frá Miðbæ.
Prentari Móða (Facit) bilaði og var nýr prentari var tengdur (Canon P10-D).
Hjari (QD-11) var prófaður áfram. Fjórir pinnar og skrúfur í hornamælinum (QHM) reyndust spansegulnæmar.  Nýir pinnar og skrúfur frá Danmörku breyttu mæliniðurstöðum svo að þær urðu samhljóma QHM, nema mjög sterkur segull væri notaður í QD tæki. Annað QD tæki var fengið frá Danmörku til frekari prófana.
Fengin voru tæki frá Lovö til samanburðarmælinga, eitt QHM tæki og fluxgate hornamælir. („DIFLUX“). Niðurstöður mælinga gáfu ekki tilefni til breytinga á tækjastuðlum QHM í Leirvogi.
Áfram fóru útreikningar  fram á PDP-11/23 tölvu RH og VAX 11/280 tölvu Reiknistofnunar.
Gestir: Birna Ólafsdóttir frá landfræðistofnun Svíþjóðar kom með tækin frá Lovö sem áður voru nefnd. Páll Einarsson kom með nemendur í jarðeðlisfræði.

1985
Vatnsbrunnur stöðvarinnar þornaði alveg.  Tilraunir Mosfellsbæjar til að grafa vatnsbrunn fyrir íþróttavöllinn mistókust. Starfsmenn bæjarins  lögðu því leiðslu frá næstu bæjarlögn  og framlengdu hana í brunn segulmælingastöðvarinnar þegar eftir því var leitað.
Prófanir á Hjara (QD-11) héldu áfram. Fengið var annað tæki (QD-16) frá dönsku veðurstofunni til samanburðar.  Það sýndi heldur meira frávik frá QHM en QD-11. Þessi mismunur var óskýrður.  Þar sem QD er í eðli sínu grundvallarmælir í D, en QHM er það ekki, var ákveðið að breyta stuðlum QHM tækjanna í Leirvogi lítið eitt til samræmis við QD-11, sem nú telst aðaltæki D-mælinga í Leirvogi.
Gestir: Natsuo Sato og Ryoichi Fuji frá Pólrannsóknastofnun Japans í Tokyo. Robert Carmichael frá Iowa háskóla kom í fylgd Leós Kristjánssonar. Leó kom þrívegis með aðstoðarmanni til að mæla heildarsviðið til samanburðar við flugsegulmælingar Leós annars staðar á landinu.

1986
Bifreið: Háloftadeild fékk litla Subaru Justy bifreið, en hafði áður notað Subaru sendibíl Raunvísindastofnunar.
Mikil snjókoma 19. mars olli erfiðleikum  við akstur að stöðinni. Hávaðarok 15. des. olli lítilsháttar skemmdum á norðurljósahúsi og velti um fullri vatnstunnu.
Tímamerki hurfu við og við í nóvember. Orsökin reyndist vera skordýr sem hafði fengið dálæti á tímamerkjaperunni.
Gerðar voru samanburðarmælingar með QHM tæki (QHM 129) sem Birna Ólafsdóttir kom með frá Lovö. Þorsteinn fór á norrænt segulmælingamót í Lovö með tvö QHM tæki úr Leirvogi.
Lagður var grunnur að nýju mælihúsi fyrir flosatæki (fluxgate) 30 m sunnan  við Vesturbæ.
Vatn fraus í nýju vatnsleiðslunni um ármót og þiðnaði ekki fyrr en undir lok febrúar. Um sumarið var leiðslan grafin upp og einangruð.
Gestir: Elísabet Guðjohnsen framkvæmdastjóri RH kom í maí. Takayuki Ono frá Pólrannsóknastofnun Japans kom í september. J.K. Hargreaves frá háskólanum í Lancaster kom til að gera prófanir á ríómæli sem hann heldur starfandi á Siglufirði. Með honum kom Ágúst H. Bjarnason frá Rafagnatækni. Páll Einarsson kom í heimsókn með nemendur í jarðeðlisfræði.

1987
Óskar vann að smíði „Flosabæjar“, fyrst í Reykjavík en síðan í Leirvogi eftir að húsið hafði verið flutt þangað á vörubíl. Þýskur námsmaður, Jan Wüster, tók mikinn þátt í  smíðavinnunni í Reykjavík. Uppsetningu Flosabæjar var lokið í nóvember.
Hestur komst inn á lóðina í september.
Kvarsklukka sem tekur við Omega siglingamerkjum var keypt frá Sviss og sett upp í Nýbæ með loftneti í Austurbæ.
Birna Ólafsdóttir kom með tvö QHM tæki (nr. 129 og 1057) frá Lovö til samanburðar við Leirvogstæki. Mælingar í Flosabæ eftir að hann var reistur sýndu óvænt frávik frá Miðbæ (45´ eða 160 nT) í segulstefnu (D) en ekki öðrum þáttum. Þetta leiddi til þess að mælingar voru gerðar um alla stöðvarlóð. Þær sýndu D vaxandi til SV um eina bogamínútu fyrir hvern metra. Upphaflegar mælingar frá 1956 voru kannaðar. Í ljós kom að reikniskekkja hafði villt mönnum sýn og hulið þessa hækkun í D. F-mælingar á lóðinni reyndust í góðu samræmi við eldri mælingu (1966).
Tvö ný mælitæki voru keypt frá dönsku veðurstofunni: QHM 1025 og QD 22. Þessi tæki komu svo seint að þau voru ekki notuð á árinu.
Heimsóknir: Jan Wüster kom tvívegis. Þorsteinn Vilhjálmsson kom. Stefán Sæmundsson kom í flugvél á leið til mælinga á Patreksfirði. Jón Ásbjörnsson verkfræðingur frá Mosfellsbæ, kom til að ræða áætlanir um malartekju. Sóley Ingólfsdóttur, nemanda úr Kópavogsskóla, var sýnd stöðin að sérstakri beiðni.
Ríómæliloftnetið (30 MHz), sem ekki hafði verið notað síðan 1983, var tekið niður.
Róteindamælirinn Magni, sem smíðaður var árið 1959 og notaður í Leirvogi frá 1962-1978, var fluttur til Reykjavíkur og telst nú til safngripa.
Reglulegum ferðum frá Reykjavík var fækkað úr 5 í 3 á viku.

1988 
Flosabær var klæddur með plasti, Suðurbær gerður að geymslurými, hillur settar í Austurbæ og Vansahús rifið. Mælistöpull úr gleri sunnan Miðbæjar gliðnaði og þurfti viðgerðar. Varðan sunnan Nýbæjar var fjarlægð.
Vatn var látið renna í kuldatíð til að koma í veg fyrir að það frysi í leiðslum.
Við hátíðahöld á íþróttavangi hrapaði flugvél 30 metra frá Nýbæ. Flugmaðurinn slapp lítið meiddur.
Straummælir sem notaður hafði verið við næmniprófanir La Cour tækja reyndist hitanæmur og hafði það skekkt niðurstöður um 0,5%. Ný mælir var keyptur.
Hætt var skráningu klukkutímameðaltala Móða á minniskubb en mínútugildi flosamælis skráð í staðinn.
Prófanir héldu áfram á stafrænu flosamælunum („Emil“).  Frávik fundust nálægt núllstöðu og hafði það áhrif á D-mælingu. Kallaði þetta á leiðréttingu allt að 6 nT nálægt núllinu.
Keypt var stuttbylgjutæki til móttöku á tímamerkjum þegar 60 kHz merkin detta út.
Þorsteinn fór með tvö QHM tæki til samanburðarmælinga á norrænt mót í Brorfelde.
Gestir: Páll Einarsson kom með nemendur  í jarðeðlisfræði.
Þorbjörn Sigurgeirsson, stofnandi stöðvarinnar, lést á árinu, sjötugur að aldri.

1989
Mikil snjókoma einkenndi byrjun árs. Skaflar á lóð náðu 2,5 metra hæð og huldu hliðið í þrjá mánuði.
Frá byrjun árs voru stafrænu flosatækin (Emil) gerð að aðaltækjum stöðvarinnar í stað La Cour tækjanna í Vesturbæ. La Cour tækin voru þó starfrækt áfram í óákveðinn tíma í varúðarskyni.
Í október kom í ljós alvarleg villa við samanburð stafrænna gagna og La Cour rita. Öll neikvæð stafræn gildi höfðu fengið ástæðulausa hækkun um 256 nT. Leiðrétta þurfti gögn 11 mánuði aftur í tímann og endursenda til alþjóðamiðstöðvar. Þessi vinna var mjög tímafrek.
Talsverð forritunarvinna reyndist nauðsynleg vegna stafrænu flosamælanna. Forritað var í Comal og Turbo-Pascal. Nokkur Fortran forrit, áður notuð við La Cour gögn, voru nýtt áfram.
Ákveðið var að setja upp annan þríása stafrænan Flosamæli til öryggis. Emil Kring Lauridsen hjá dönsku veðurstofunni lét slíkan mæli í té skömmu fyrir árslok.
Pappír fyrir La Cour tækin var á þrotum og ófáanlegur frá Kodak. Toyo Kamei hjá gagnamiðstöðinni í Kyoto kom til bjargar og eftir prófanir var ákveðið að nota eina tegundina þaðan.
Nýjasta QHM tækið, QHM 1025, truflaðist af stöðurafmagni í kuldakasti og þurrk. Tækið er umlukt gleri, og kallar þetta á meðferð með klút.
Nýr, ósegulmagnaður hyrnir (theodolit, Theo 010B) var keyptur frá Carl Zeiss í Jena. Tækið var sent til norðurljósastöðvarinnar í Tromsö þar sem flosanema og rafeindabúnaði var bætt við til að gera tækið að DI-flosamæli. Steinar Berger bauð fram þessa aðstoð á mjög svo ásættanlegum kjörum. Vinnunni var ekki lokið fyrir árslok.
Birna Ólafsdóttir frá Lovö kom með QHM tæki (QHM 1057) til samanburðar við Leirvogstæki.
Gestir: Nemandi úr Digranesskóla heimsótti stöðina að ósk skólastjóra.
Skrifstofa Háloftadeildar fluttist úr byggingu Raunvísindastofnunar í Tæknigarð.

1990
Pálmi fór á virkum dögum í stöðina. Bjarni Guðmundsson sá um helgarnar fram í miðjan janúar. Þá tók Máni Þorsteinsson við helgarferðum og einnig daglegum ferðum meðan Pálmi var í sumarfríi.  Máni gerði einnig nokkrar Miðbæjarmælingar seinni hluta árs.
Nýr Subaru Justy bíll tók við af þeim gamla.
Stormur í janúar hristi Nýbæ svo að Omegaklukkan skekktist. Hvassviðri í mars skellti ytri hurð Vesturbæjar svo að umsjónarmaður (Pálmi) læstist inni í þrjár klukkustundir. Stormur í september svifti báruplasti af þaki Nýbæjar.
Hinn 17. júní hrapaði vél í flugtaki á vellinum vestan stöðvar og eyðilagði staur sem markaði horn stöðvarlandsins.
Í mars-apríl mældust snjóskaflar allt að 2,3 m í mánaðartíma.
Unnið var að gróðursetningu trjáa.
Unnið var að uppsetningu nýs þríása flosamælis í Vesturbæ. Kaplar voru lagðir úr Nýbæ.
Sex manns veittu aðstoð við að ná niður sendinum sem beinir Móðamerkinu til Reykjavíkur. Raki hafði komist að honum vegna veðrunar.
Rafeindabúnaður fyrir DI-flosamælinn „Steinar“ barst í mars. Í maí tók þetta tæki við af QHM og QD tækjum við Miðbæjarmælingar í Leirvogi. Rofa var komið fyrir þannig að róteindarmæling Móða yrði skráð samtímis DI-flosamælingu.
Plast var sett á þök Vesturbæjar og Austurbæjar.
Norðurljósahúsið var rifið.
Gestir: Páll Einarsson kom með nemendur í jarðeðlisfræði.

1991
Þorgerður var í veikindaleyfi um sumarið. Þá var Helga Ívarsdóttir ráðin til aðstoðar. Hún sá um daglegar ferðir í stöðina á virkum dögum meðan Pálmi var í sumarleyfi. Máni sá um helgarnar. Hann gerði einnig Miðbæjarmælingar einu sinni í mánuði.
Í janúar truflaði jarðskjálfti mælingarnar, og það gerðu líka eldingar 3 og 8 mínútum síðar. Eldingarnar slógu út öllum rafeindatækjum í Leirvogi og skemmdu eina AD-breytu.
Feiknamikill stormur (150 km/klst.) olli rafmagnsleysi í 8 klst.
Skráning gagna frá stafræna flosamæli I (Emil) á disklinga truflaðist nokkrum sinnum. Áhersla var því lögð á uppsetningu annars tækis (Diflux II, „Óli“) sem Ole Rasmussen við dönsku veðurstofuna hafði hannað. Tækinu var komið fyrir í Vesturbæ og La Cour tækin fjarlægð. Ofn var settur í framherbergi Vesturbæjar til að tryggja jafnt hitastig. Prófunum á nýja tækinu lauk í október.
Á heitasta degi ársins fór hitinn í Nýbæ í 30 stig. Það reyndist of mikið fyrir gömlu kristalsklukkuna, og brást hún í 7 klst.
Hinn 1. nóvember, þegar La Cour skráningu á ljósmyndapappír var hætt, urðu daglegar ferðir í stöðina óþarfar. Upp frá því takmörkuðust reglulegar ferðir við vikulegar Miðbæjarmælingar
Stormur í október olli skemmdum á Móðaloftneti. Það var tekið niður og lækkað. Tók það sex manns þrjár klukkustundir.
DI-flux mælirinn Steinar bilaði í maí. Eftir viðgerð var sóst eftir því að fá annan mæli til vara frá Tromsö. Sá mælir kom í september og var skírður Þorgils í höfuðið á Truls Lynne Hansen, forstjóra norðurljósastöðvarinnar í Tromsö, eftirmanni Steinars Berger.
Helmholtz spólurnar sem notaðar höfðu verið til að prófa La Cour tækin reyndust of litlar til prófana á stafrænu flosamælunum. Ný og stærri spóla (30 cm í þvermál) var keypt frá dönsku veðurstofunni og svið spólunnar ákvarðað með mælingum.
Leó Kristjánsson kom með óhæðis-segulmæli (astatic magnetometer) sem hann setti upp í Austurbæ til að kanna segulvirkandi óhreinindi í áhöldum og tækjum.
Skráning segulsviðs við Miðbæjarmælingar var flutt á disklinga sem þjónuðu flosamælunum Emil og Óla. Áður hafði þessi skráning verið prentuð út.
Öryggiskerfið til varnar innbrotum reyndist bilað og var endurbætt. Reykskynjarar voru settir upp í Nýbæ og Austurbæ.
Úreltur rafeindabúnaður var fjarlægður úr Nýbæ og Austurbæ.
Starfsmenn Mosfellsbæjar sáu um slátt og hirðingu
Natsuo Sato útvegaði pappír fyrir La Cour skráningu og Toyo Kamei í Kyoto útvegaði örfilmur til afritunar.
Þorsteinn fór með eitt QHM tæki til Sodankylä til prófunar á norrænu mælingamóti.
Gestir: Marie la Cour, afabarn Dan La Cour kom í heimsókn í Leirvog 30. janúar, rétt eftir að eldingar höfðu gert öll rafeindatæki  óvirk. Einu tækin sem virkuðu voru tækin sem afi hennar hafði hannað.
Harold Finch frá Crewe heimsótti stöðina í mars í boði Pálma. Í júlí komu hjónin í Leirvogstungu, Guðmundur Magnússon og Selma Bjarnadóttir. Skömmu síðar kom þorrinn af skrifstofufólki Raunvísindastofnunar í skoðunarferð.

1992
Þorgerður var aftur í veikindaleyfi um sumarið en kom síðan í fullt starf í september. Máni fór í stöðina í sumarleyfi Pálma, mældi nokkrum sinnum í Miðbæ og aðstoðaði úti á landi.
Jón Sveinsson vann mikið að tækjum þrátt fyrir veikindafjarverur í meira en 3 mánuði. Báruplast fauk af þaki Austurbæjar í nóvember.
Snjóskaflar náðu 2 m hæð í desember.
Ný mælistöð (Húsey II)  var sett upp í á Héraði þar sem gömlu mælistöðinni (Húsey I) var ógnað af Jökulsá.  Á Patreksfirði var fyrri mælistöð komin á kaf í sand svo að ný mælistöð var sett þar upp (Patreksfjörður II). Mælt var á báðum stöðum (tvær ferðir).
Vari bilaði í júlí eftir 13 ára samfellda notkun. Nýr róteindamælir, Elsec 820 („Nonni“), var keyptur  í október og neminn settur í Miðbæ á sama hátt og Vari. Skráning var á disklinga á Toshiba T1000 fartölvu.
Önnur Omegaklukka (Omegarec) var keypt frá Sviss og höfð sem varaklukka.
Tölva af gerðinni BBC+ var sett upp í Nýbæ og önnur á háloftadeild í Reykjavík þar sem skráning á Z, H og D frá flosamæli birtist á skjá, endurnýjað á 10 sek. fresti. Sendingum Móðamerkis til Rvk. var hætt.
Starfsmenn Mosfellsbæjar sáu um slátt og hirðingu.
Gestir: Nemandi frá Hveragerði kom í kynnisferð. Páll Einarsson kom með nemendur í jarðeðlisfræði.

1993
Þrumuveður olli rafmagnsleysi um Suðvesturland í klukkutíma 12. febrúar. Vegna veðurofsa varð 18 klst. töf á því að Leirvogstæki, sem truflast höfðu, yrðu lagfærð.
Mælingar Óla reyndust stöðugri en mælingar Emils svo að skipt var um merki sem sent er til Reykjavíkur. Sendingar Móðamerkis til Rvk. voru teknar upp aftur. Tölvuskjár var settur upp í Nýbæ til að sýna flosamælingarnar þar á sama hátt og í Reykjavík. H og D flaumrænu flosamælarnir í Austurbæ og ritarar þeirra í Nýbæ voru þar með úreltir. Ritararnir voru síðustu tækin sem tóku við merkjum frá gömlu kristalsklukkunni, sem verið hafði aðaltímagjafi stöðvarinnar frá 1963 til 1989.
Tekin var upp skráning á 10-sekúndna gögnum sem send höfðu verið til Rvk. frá því í janúar 1991.
Í júlí fékk Síminn tæki til móttöku á Omega siglingamerkjum. Þar með var ekki lengur þörf á því að fylgst væri með símaklukkunni í segulmælingastöðinni.
Lóðin: Stöðvarstarfsmenn slógu kringum byggingar. Fáein tré og runnar gróðursett.
Norrænt segulmælingamót var haldið í Leirvogi í júní. Þáttakendur voru: Truls Lynne Hansen og Børre Holmeslet frá Tromsö, Børge Pedersen frá Kaupmannahöfn, Birna Ólafsdóttir og Patrik Johansson frá Uppsala, Torbjörn Lövgren og Inge Marttala frá Kiruna, Heikki Nevanlinna frá Helsinki, Kari Pajunpää frá Nurmijärvi og Johannes Kultima frá Sodankylä. Fenginn var skúr frá Landsvirkjun til aðseturs fyrir þátttakendur.  Mælistöpullinn suðvestan við Miðbæ var notaður eins og í fyrra skipti (1980) með sérhönnuðu tjaldi. Mælingar tóku þrjá daga.
Aðrir gestir: Stefán Friðbjarnarson frá Mbl. kom í heimsókn.

1994
Þorgerður fór aftur í hálft starf. Jón Sveinsson fluttist frá eðlisfræðistofu til Háloftadeildar. Máni sá um stöðina í sumarleyfi Pálma og mældi nokkrum sinnum í Miðbæ.
Talsverð snjókoma í febrúar og mars, skaflar upp í 2,3 m.
Stafræni Flosamælirinn Óli tók við af Emil sem aðaltæki þar sem hann hafði reynst stöðugri.
10-sekúndna gögn voru í upphafi send þráðlaust til Reykjavíkur.  Sendingarnar gátu oft truflast, og í nóvember 1994 var Fountain tölva sett upp í Leirvogi með mótaldi og gögnin sótt gegnum síma.
Byrjað var að birta línurit hvers dags í árbókinni.
Fylgst var með símaklukkunni að beiðni Símans, þótt hún eigi nú að stjórnast af Omega siglingamerkjum. Skekkjur upp í 6 sekúndur voru tilkynntar fjórum sinnum í febrúar og mars.
Öryggiskerfið (innbrotskerfið) reyndist úr sér gengið og nýtt kerfi var keypt og sett upp.
Gamla varðan norðan afleggjarans að stöðinni var fjarlægð. Hún hafði ekki verið notuð síðan 1984 (íþróttahús skyggði á).
Bóndi sló lóðina en olli miklum truflunum sem erfitt var að leiðrétta. Hirðing gleymdist fram í nóvember þegar farið var að snjóa.
Gestir: Hallgrímur Jónsson, formaður flugklúbbs Mosfellsbæjar, kom í heimsókn. Tilefnið  var biluð vatnsleiðsla sem hafði sprungið og myndaði gosbrunn vestast á stöðvarlóð, utan girðingar. Hrafn Baldursson frá Stöðvarfirði kom í heimsókn.

1995
Máni gerði nokkrar Miðbæjarmælingar og aðstoðaði við önnur störf og mælingar úti á landi.
Óskar Ágústsson hætti störfum á RH í maí.
Við rafmagnsbilun í stormi í  nóvember slógu öll tæki út nema Nonni og gögn glötuðust í sólarhring.
Ný Elite Pro 486 tölva kom í stað Fountain 286 tölvu við skráningu 10-sek. gagna.
Aðeins var slegið kringum húsin. Það var gert nokkrum sinnum á ári eftir þetta.
Gerð var gagnger endurbót á þrýstijafnara Móða.
Karl Pálsson frá Norrænu eldfjallastöðinni setti upp GPS móttökutæki á norðaustur-lóðarstólpa stöðvarinnar. Tækið var liður í mælingum á jarðskorpuhreyfingum.  Það nýttist til prófunar á staðsetningu Miðbæjarstöpuls sem reyndist 0,12“ (1,6 m) vestar en áður hafði verið talið.

1996
Þorgerður aðstoðaði við gagnaúrvinnslu fram í apríl. Máni framkvæmdi nokkrar Miðbæjarmælingar og aðstoðaði við ýmis tölvumál. Óskar veitti umbeðna aðstoð við viðgerðir eftir storm sem skemmdi byggingar í febrúar.
Grétar Ágústsson aðstoðaði við mælingu úti á landi (Patro II).
Í desember kom mús í Miðbæ í fyrsta sinn í sögunni. Nagaði aðeins eitt handfang á skrúfjárni.
Móði gekk vandræðalaust allt árið, í fyrsta sinn. Það er að nokkru þakkað endurbótum sem gerðar voru á þrýstijafnaranum árið áður.
Gert var við girðingar og málað.
Karl Pálsson frá Norrænu eldfjallastöðinni setti aftur upp GPS móttakara í mars. Tækið starfaði til áramóta.

1997
Jón Sveinsson fékk hjartaáfall og var frá vinnu í nokkra mánuði. Ágúst H. Bjarnason (Rafagnatækni) sinnti tækjaviðgerðum á meðan. Máni mældi nokkrum sinnum í Miðbæ og vann í tölvumálum.
Talsverð snjókoma var í febrúar og skaflar náðu 2 m og héldust þannig á annan mánuð.
Rússneskur heimsmeistari kvenna sýndi loftfimleika í flugvél yfir stöðinni í júní.
Móði tók að bila aftur í janúar og fram í september eftir gott gengi á fyrra ári.
Omegarec klukkunum var víxlað aftur vegna erfiðleika við stillingar.
Vegna fyrirhugaðrar lokunar á Omega kerfinu var keypt GPS móttökutæki sem hentaði við Omegarec klukkurnar. Þær klukkur reyndust þó óstöðugar og og olli það ítrekuðum erfileikum.
Í desember var keypt nýtt tæki frá dönsku veðurstofunni. Var það flosatæki af gerð FGE, útgáfa E, fullkomnari  en fyrri gerðir, og er ætlunin að það komi í staðinn fyrir Emil og Óla.
GPS móttökutækið sem Karl Pálsson setti upp árið áður var fjarlægt í maí.
Nokkur tré og runnar voru gróðursett.
Vatnshitari var settur í Austurbæ.

1998
Karl J. Sigurðsson umsjónarmaður RH aðstoðaði við viðhald fasteigna. Máni uppfærði tölvur og gerði eina Miðbæjarmælingu. 
Stormur í júlí olli skemmdum á runnagróðri.
La Cour tækin voru endanlega fjarlægð úr Vesturbæ. Þau höfðu ekki verið notuð síðan 1991. Í þeirra stað kom nýja flosatækið FGE-E sem fékk nafnið Óli II. Prófanir á því tæki fyrri hluta árs sýndu óviðunandi niðurstöður og tækið var endursent til Danmerkur í maí. Ekkert fannst athugavert og tækið kom aftur í júlí. Prófanir staðfestu fyrri neikvæðar niðurstöður og var framleiðendum tilkynnt um það. Í ágúst kom skeyti frá framleiðendum um að hönnunargalli hefði fundist. Gallinn var þess eðlis að hægt var að laga hann í Leirvogi. Það var gert og tækið gert að höfuðtæki stöðvarinnar í október.
Móði gekk vandræðalaust þetta ár.
Omegarec klukkurnar reyndust erfiðar í rekstri og var tímafrekt að leiðrétta tímasetningar af þeim sökum.
Þorsteinn fór með eitt tæki (QHM 1025) til samanburðarmælinga í Brorfelde í Danmörku.  Niðurstöðurnar staðfestu þau kvarðagildi sem notuð hafa verið við mælingar með DI-flosatækinu Stefni.

1999
Máni leysti tölvuvanda við úrvinnslu gagna.
Mikil snjókoma í desember. Skaflar 2,3 m.
Flugklúbbur Mosfellsbæjar fékk leyfi fyrir öryggisbraut sem náði aðeins inn fyrir eignarlóð stöðvarinnar.  Rétt eftir að brautin var fullgerð, nauðlenti  vél á henni.
Mikill fjöldi máva flykktist að stöðinni eftir að sorphaug lengra frá hafði verið lokað. Kalla þurfti eftir vaktmanni með skotvopn til að flæma þá í burtu.
Fulltrúar frá Mosfellsbæ komu til að ræða fyrirætlanir um að færa veginn niður að flugvellinum  nær stöðinni til að auðvelda malartekju. Þetta var talið óæskilegt vegna mælinganna og hætt var við áformin.
Aðaltækið Diflux-I (Óli) gekk snurðulaust, þegar frá eru taldir 14 klst. þegar stöðvarklukkan stansaði vegna tómrar rafhlöðu. Varatækið Diflux –II (Emil) sýndi nokkur smávægileg hnik (um 2 nT) sem engin skýring fannst á.
Önnur af tveimur BBC tölvum sem flytja gögn úr BBC sniði í PC snið bilaði.  Þessar tölvur eru ekki lengur fáanlegar, en með því að auglýsa í dagblaði tókst að fá eina slíka.
Sögulegar myndir voru birtar í árbók stöðvarinnar.
Gestir: Páll Melsted, garðyrkjustjóri Háskólans kom og veitti ráðleggingar í sambandi við trjásnyrtingu. Hrafn Baldursson frá Stöðvarfirði kom í annað sinn. Patrik Johansson, Anders Gustafson og Gerhard Schwarz frá jarðfræðikönnun Svíþjóðar komu í heimsókn. Óskari Ágústssyni var einnig boðið í stöðina.

2000
Þótt Runólfur væri kominn á eftirlaun, sinnti hann áfram Móðadælu.  Máni framkvæmdi tvær Miðbæjarmælingar.
Mikið snjóaði fyrstu þrjá mánuði ársins. Skaflar fóru nokkrum sinnum yfir 2 m á hæð og skemmdu tré. Í þrjár vikur í mars var ekki hægt að sjá aðalvörðuna vegna skafla. Hvassviðri í september stórskemmdi loftnetið sem sendir 10-sek. gögn til Reykjavíkur. 10-sek. gögnunum er einnig safnað í Leirvogi og þau send gegnum síma. Annar stormur í nóvember skaddaði tímamerkjaloftnetið og hluta girðingar. Alvarleg mistök urðu hjá Rafveitunni 11.  ágúst þegar verið var að vinna við lögnina að stöðinni. Við tengingu var 380 V sett á kerfið í stað 2290 V. Þetta olli bilunum í straumbreytum. Viðgerðum var ekki lokið þegar eldingu sló niður við stöðina fjórum dögum síðar og olli meiri skemmdum á mörgum tækjum og stöðvaði allar mælingar.  Viðgerð tók marga daga.
Rafveitan vildi fá að flytja háspennubreyta nær stöðinni, en því var afstýrt. Breytarnir eru um 300 metra suðaustan við stöðina, í samræmi við eldra staðarval.
Vara-flosatækið (Emil) sýndi áfram óskýrð stökk um 2-3 nT.
Aftur voru birtar myndir í árbókinni (ekki oftar).

2001
Jón Sveinsson fékk hjartaáfall í maí og var fjarverandi fram í október.
Óskar endurgerði vörðuna á óbreyttum stað.
Í stormi í febrúar sundraðist hús í byggingu 4 km frá stöðinni og brak úr húsinu lenti á stöðvarlóðinni.
Flugklúbburinn fékk leyfi til að breikka lendingarbraut sína.
Stafræni flosamælirinn (Óli) sýndi óreglur í D og H , sem ekki komu fram á varatækinu (Emil). Í samráði við hönnuðinn (Ole Rasmussen) var ýmislegt reynt, en án árangurs. Nýr rafeindabúnaður var pantaður í nóvember, en áður en skipt var um, hætti óreglan.
Varatækið (Emil) sýndi tímabundin frávik í Z eins og undanfarin ár.  Í nóvember voru höfð skipti á refeindabúnaði Emils og Óla.
Tré voru snyrt og greinahrúga fjarlægð á vörubíl.

2002
Jón Sveinsson var frá vinnu við og við vegna áfallsins árið áður og vegna fótbrots.
Nýr Skoda Fabia kom í stað Subaru Justy.
Stormur í febrúar ollu miklu tjóni á girðingum og hliðum. Mikið ryk náði inn í Austurbæ og Miðbæ svo að kallaði á meiriháttar hreinsun. Stormur í júní skildi eftir umtalsvert brak á stöðvarlóðinni.
Raflínan í stöðina rofnaði í apríl. Kapallinn hafði farið í sundur undir íþróttavellinum. Menn frá Rafveitunni fundu bilunina daginn eftir og gerðu við kapalinn. Rafgeymar sem áttu að sjá um stöðvartækin brugðust og 14 stundir af mælingum glötuðust. Í maí töpuðst 20 stundir vegna rafmagnsleysis þegar hleðslutæki bilaði. 
Stafræni DI-flosamælirinn Óli hélt áfram að sýna óskýrð stökk um 3-4 nT, aðallega í D. Í október var skipt um rafeindabúnað og tekinn í notkun búnaðurinn sem keyptur hafði verið árið áður. Gamla einingin var send til viðgerðar hjá dönsku veðurstofunni.
Emilstölva bilaði og nýrri tölvu var tjaslað saman.
Róteindamælirinn Nonni bilaði í nóvember. Annað tæki ( Geometrics G856-AX),„Geó“ ) var fengið að láni frá jarðeðlisfræðistofu.
Enn voru tré gróðursett og eldri tré snyrt.

2003
Jón fór í hlutastarf í september af heilsufarsástæðum. Hann gekkst undir uppskurð í brjósti á ágúst og aftur í desember.
Marteinn Sverrisson og Gunnlaugur Björnsson settu upp vefsíðu fyrir Leirvogsmælingar í rauntíma og sjálfvirkar gagnasendingar til Kyoto á klukkutíma fresti. Máni gerði tvisvar Miðbæjarmælingar í fjarveru Þorsteins. Ágúst H. Bjarnason (Rafagnatækni) vann að Nonna.
Nonni var tekinn aftur í notkun í febrúar en reyndist ótraustur. Hann var sendur til framleiðanda í Oxford í nóvember. Í hans stað var notaður við Miðbæjarmælingar mælirinn Geó, fenginn að láni frá jarðeðlisfræðistofu.
Aðvörunarkerfið fór í gang að ástæðulausu. Starfsmaður frá öryggisfyrirtæki ráðlagði kaup á nýju tæki sem hann setti upp. Það reyndist ekki virka sem skyldi, fór aðeins i gang ef slegið var inn lykilorð fyrst!
Deilur risu um reikninginn fyrir þessa vinnu.
Borið var á rætur trjáa og runna, trjágróður snyrtur og slegið kringum hús.
 
2004
 Jón var í hlutastarfi af heilsufarsástæðum. Marteinn sinnti Línuxkerfinu. Gunnlaugur og Marteinn sinntu vefsíðu stöðvarinnar og gagnasendingum til Kyoto.
Stormdagar voru fleiri en venjulega og ollu skemmdum á girðingum og húsum í fimm skipti.
Nonni kom úr viðgerð í janúar. Eftir ítrekaðar mælingar, sem gáfu ófullnægjandi niðurstöður, var tækið  sent aftur til framleiðanda í júlí. Í september endursendi framleiðandinn tækið með þeirri umsögn að það væri ekki viðgerðarhæft. Var þá leitað til Eggertsjóðs (sem kenndur er við Eggert Briem) um fjárveitingu sem fékkst til að kaupa nýtt tæki. Keypt var sams konar tæki og áður hafði verið fengið að láni hjá Leó Kristjánssyni á jarðeðlisfræðistofu, G856-AX frá Geometrics Inc. Í San Jose. Tækið fékk nafnið „Eggert“, eða Geó II. Talsverð vinna fór í að aðlaga það þeim mælingum sem Nonni hafði séð um. Þeirri vinnu var lokið í nóvember.
Gamla kristalsklukkan, sem talin er elsti rafeindabúnaður smíðaður á Íslandi og enn gangfær, stöðvaðist þegar innri rafhlaða tæmdist. Skipt var um rafhlöðu.
Eftirliti með símaklukku var hætt. Engar skekkjur höfðu komið fram síðan 1994.
Gamla Benioff spantækið og norðurljósamyndavél voru fjarlægð úr Leirvogi.
Trjávöxtur hefur aukist vegna hlýinda. Runnar hækkuðu um 1,5 m frá apríl til ágúst. Borið var á og tré snyrt. Slegið kringum hús.

2005
Jón áfram í hlutastarfi af heilsufarsástæðum. Þorsteinn hætti í marslok eftir 43 ára starf við stöðina. Við tók Gunnlaugur Björnsson sem verið hafði á eðlisfræðistofu.  Þorsteinn sinnti Miðbæjarmælingum stöku sinnum í fjarveru Gunnlaugs.  Marteinn sá áfram um Linux kerfið.
Rafmagn brást aldrei á árinu – í fyrsta sinn í sögu stöðvarinnar.
Eigendur Leirvogstungu hafa ákveðið að leyfa bygginu 400 húsa á landi sínu.
Hestar komust inn á lóðina í ágúst og veltu um koll mælistöpli II, suðvestan Miðbæjar.
Undirbúningur hófst til að skipta út BBC tölvunum í Leirvogi. Komið var upp ADSL tengingu þannig að fartölvan sem geymir 10-sekúndna gögnin varð aðgengileg á alnetinu. Eftir það þurfti ekki að nota símatenginguna. Stefnt er að því að allur gagnabúnaður verði aðgengilegur með þessum hætti.

Eftirlit í Leirvogi:
1957-1958 Ingólfur Ingólfsson, Fitjakoti
1958-1960 Viggó Valdimarsson, Hlégarði
1960-1965, 1988 Haukur Níelsson, Helgafelli
1965-1966 Vilhjálmur Þ. Kjartansson EH
1966- 1971 Guðmundur Örn Árnason RH
1968  Einar H. Guðmundsson RH
1969-1970 Ágúst H. Bjarnason RH
1971- 1976 Svanberg K. Jakobsson RH
1971  Barði Þorkelsson sumarhúseigandi,   Þorsteinn Pétursson, Brúarlandi
1972-1973 Sigurjón Ásbjörnsson, Álafossi,
1972- 1987 Haukur Högnason, Helgafelli/Skriðufelli
1976-1977 Ingólfur H. Tryggvason RH
1977 -1978 Sverrir Gíslason RH
1977  Björgvin S. Jónsson RH
1978-2005 Pálmi Ingólfsson
1978  Sverrir Gíslason RH, Árni G. Jónsson RH
1987-1990  Bjarni Guðmundsson, Leirvogstungu
1988-1989, Daði Runólfsson, Leirvogstungu
1990-1992 Máni Þorsteinsson
1991  Helga Ívarsdóttir, nemi

Úrvinnsla gagna:
1963-1996 Þorgerður Sigurgeirsdóttir RH
1967-1968 Inga Hersteinsdóttir RH
1968  Vésteinn Eiríksson RH
1969-1970  Ásdís Sigurðardóttir RH
1970 Jóna Ingvarsdóttir RH, Valva Árnadóttir RH
1979- 2005  Pálmi Ingólfsson RH
1991 Helga Ívarsdóttir, nemi
 
Viðhald og smíði tækja:
1962- 1988 Þorbjörn Sigurgeirsson
1963- 1983 Björn Kristinsson HI, Rafagnatækni
1968-2004 Ágúst H. Bjarnason RH, Rafagnatækni
196,8- Vilhjálmur Þ. Kjartansson RH
1968- Kristján Benediktsson RH,
1971- 2005 Marteinn Sverrisson RH
1972- 1980 Karl Benjamínsson  RH
1973- 2005 Jón Sveinsson RH
1974-1981 Björn Búi Jónsson  MR
1976- 1981 Unnur Steingrímsdóttir RH 
1976 - 1981 Sigtryggur Guðmundsson, HÍ
1976, 1983 Aðalsteinn  Guðbjörnsson Rafagnatækni
1978- 1983 Hjalti Harðarson RH
1978- 1987 Kjartan Harðarson RH
1978- 1991 Leó Kristjánsson RH
1978  Bryndís Brandsdóttir RH
1979  Þórður Kristjánsson RH, Aðalsteinn Guðbjörnsson, Rafagnatækni, Ástvaldur Eiríksson,  Rafagnatækni,  Aðalsteinn Eiríksson RH
1976- 1981 Unnur Steingrímsdóttir RH
1977- 1980 Kristján Benediktsson, Fjarskiptatækni
1980- 2002 Runólfur Valdimarsson
1979- 1982 Hilmar Skarphéðinsson RH
1980  Axel Sölvason HÍ
1981  Henry Johansen RH, Sigurður Emil Pálsson RH, Þórður Kristófersson RH, Sigtryggur Guðmundsson HÍ
1982-1984  Sigurjón Egilsson úrsmiður
1981-1982  Ágústa Guðmundsdóttir
1984 Vésteinn Þórsson RH
1996-1999 Máni Þorsteinsson
2000  Hörður Guðmundsson RH
2004  Þorsteinn Jónsson RH

Viðhald fasteigna og nýsmíði:
1968- 1996, 2001 Óskar Ágústsson
1969-1970 Hjalti Þórarinsson
1966- 1971 Guðmundur Örn Árnason RH
1972- 1976 Svanberg K. Jakobsson RH
1976- 1977 Ingólfur H. Tryggvason RH
1978  Árni G. Jónsson RH, Ari Sigurðsson
1978- Pálmi Ingólfsson RH
1979  Lúðvík Jónsson, Ari Sigurðsson, Konráð Hjaltason
1981  Erlingur Brynjólfsson, Helgi Sigurðsson
1987  Jan Wüster, nemi RH
1990, 1992  Máni Þorsteinsson
1998  Karl J. Sigurðsson RH

Gróðurvinna:
1983- 1986 Ingólfur Pálmason
1984- 1990 Gunnar Þórisson, Fellsenda
1986- 1993 Hulda Gunnarsdóttir
1988  Guðrún Ingólfsdóttir
1993, 1995  Guðný Sigrún Hjaltadóttir

Önnur aðstoð:
1979 Gilian Foulger RH
1979-1988 Guðmundur Magnússon, Leirvogstungu
1982  Stefán Sæmundsson flugmaður
1984  Guðjón Haraldsson vinnuvélstjóri
1989-2005 Selma Bjarnadóttir, Leirvogstungu
1996  Grétar Ágústsson

Mælingar  úti á landi:
1960 Guðnastaðir, Húsey
1965 Guðnastaðir, Húsey
1969 Guðnastaðir
1971 Guðnastaðir, Húsey
1975 Guðnastaðir
1978 Guðnastaðir
1979 Guðnastaðir, Húsey
1982 Guðnastaðir, Patreksfjörður
1983 Guðnastaðir, Patreksfjörður, Húsey
1985 Guðnastaðir, Patreksfjörður
1986 Patreksfjörður
1987 Guðnastaðir, Patreksfjörður, Húsey
1990 Guðnastaðir
1992 Guðnastaðir, Húsey I, Húsey II, Patreksfjörður I, Patreksfjörður II
1994 Húsey I, Húsey II
1995 Guðnastaðir, Húsey I, Húsey II
1996 Patreksfjörður II
1997 Patreksfjörður II
1998 Guðnastaðir
1999 Guðnastaðir
2001 Guðnastaðir
2002 Patreksfjörður II
2003 Húsey I, Húsey II
2004 Guðnastaðir
2005 Guðnastaðir
 

Þ.S. 2022

Forsíða